laugardagur, 13. maí 2017

lestrardagbók 2017Nýverið rakst ég á frábært enskt orð sem er ekki að finna í orðabók: readlief (read og relief skeytt saman). Merking þess er þegar þú loksins kemst í það að byrja á bók sem þú hefur ætlað að lesa í mörg ár. Lestrarléttir væri kannski ágætt íslenskt orð, en bókalistarnir mínir hafa stuðlað að mörgum slíkum. Það er gefandi að strika bók af listanum og enn frekar ef hún reynist góð. Langar-að-lesa listinn minn styttist að vísu ekki neitt því ég er stöðugt að rekast á bækur sem rata á hann. Höfuðverkur bókaunnandans. Hér að neðan er að finna nokkrar pælingar um bækur sem voru á № 7 bókalistanum mínum, sem ég deildi í febrúar. Ég bjó til nýjan flokk fyrir þessar tilteknu færslur sem ég kalla Lestrardagbók (árið í titlinum gefur til kynna hvenær umræddur bókalisti birtist á blogginu).

№ 7 bókalisti (6 af 9):

· Fictions eftir Jorge Luis Borges. Þessu smásögusafni er ávallt lýst sem frumlegu. Það er bókmennta- og heimspekilegt og ekki fyrir alla. Ég hef ekki lesið neitt í líkingu við það. Fyrstu tvær sögurnar fönguðu mig ekki en um leið og ég byrjaði á þeirri þriðju þá var ekki aftur snúið. Sú saga kallast „Pierre Menard, Author of the Quixote“ (birtist í argentíska bókmenntaritinu Sur í maí 1939) og fjallar um mann sem endurskrifar Don Quixote eftir Cervantes, línu fyrir línu. Hugmyndin að sögunni er snilld.

· The Grass is Singing eftir Doris Lessing. Þegar ég lauk lestrinum var mín fyrsta hugsun á ensku: powerful. Síðan þá hef ég heyrt marga nota sama orð yfir bókina sem var sú fyrsta eftir Lessing og kom út árið 1950. Hún byrjar á morði á aðalsögupersónunni Mary Turner og eftir því sem líður á lesturinn kynnumst við bakgrunni hennar og hvað leiddi til þessa harmleiks, í raun hvað sundraði lífi hennar á bóndabæ í Suður-Ródesíu (núna Simbabve). Lessing ólst þarna upp og lýsir afríska landslaginu meistaralega. Það eru mánuðir síðan ég lauk lestrinum og ég er enn að hugsa um bókina sem er góð sálfræðistúdía.

· The Golden Notebook eftir Doris Lessing. Þessi telst til klassískra verka og er ekki fyrir alla. Ég átti erfitt með nokkra hluta, áveðnir partar fannst mér ýmist fullir af endurtekningum eða of langir, og það tók mig dágóðan tíma að klára bókina. En það er ekki hægt að þræta fyrir þá staðreynd að þetta er áhrifaríkt bókmenntaverk. Góðu hlutarnir eru eftirminnilegir og ég er glöð að ég tók loks af skarið og sneri þessari bók upp í lestrarlétti.

· Captain Corelli's Mandolin eftir Louis De Bernières. Ég las einhvers staðar að þetta væri skáldsaga með hjarta og sú lýsing á vel við. Það eina sem truflaði mig örlítið á fyrstu 100 blaðsíðunum eða svo voru kynningar á persónunum (hver fær sér kafla), en hann komst ekki hjá þeim því í bókinni koma margir við sögu. Bernières bætir upp fyrir þetta með dásamlegum, og oft kómískum, smáatriðum, sérstaklega lýsingum á lífinu í þorpinu (bókin gerist á grískri eyju í seinni heimsstyrjöldinni).

· Instead of a Book: Letters to a Friend eftir Diana Athill. Ég er hrifin af bréfum en undir lokin á þessu safni var ég við það að missa þolinmæðina. Athill og vinur hennar voru að eldast og síðustu bréfin innihéldu of mikið af tali um heilsufar, sem er ósköp eðlilegt á milli náinna vina en allt annað en skemmtilegt að lesa. Hún kemur einmitt að þessu í eftirmálanum og segir þetta vera ástæðu þess að hún hafði bréfin ekki fleiri. Bók hennar Stet er á langar-að-lesa listanum mínum og ég hef ekki lesið neitt nema lof um hana þannig að kannski ættuð þið að íhuga að lesa hana fyrst ef þið hafið áhuga á skrifum Athill.

· Local Souls eftir Allan Gurganus. Ég ákvað að fresta lestrinum á þessari. Eins og fram kom í bloggfærslunni ætlaði ég alltaf að lesa bók hans Oldest Living Confederate Widow Tells All  á undan þessari. Það var akkúrat það sem ég ákvað svo að gera.

· In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910 eftir Sue Roe. Ég er ekki listfræðingur en ég held að höfundurinn hafi unnið heimavinnuna sína vel. Mér fannst bókin áhugaverð en hefði viljað sjá meira af ljósmyndum af málverkum (ég var stöðugt að fletta upp á netinu verkum sem komu fyrir í textanum til að vera viss um að ég væri með rétt í huga eða til að sjá þau sem ég kannaðist ekki við). Mér fannst gaman að lesa um Picasso, Matisse og aðra listamenn en stundum voru stuttar sögur úr lífi fólks sem tengdist þeim sem, að mínu mati, höfðu lítið vægi. Að því leyti hefði bókin mátt við frekari endurskrifum.

Hafið þið fundið fyrir lestrarlétti (readlief ) nýlega?

Þessa dagana er ég að klára að lesa bækurnar á № 8 bókalistanum og kem til með að skrifa tvo ritdóma, um stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad, og um skáldsöguna Pachinko eftir Min Jin Lee.


mánudagur, 17. apríl 2017

fæðingardagur Karen BlixenGleðilega páska! Í dag er fæðingardagur dönsku skáldkonunnar Karen Blixen (f. 17. april 1885, d. 7. september 1962), sem skrifaði margar sögur undir skáldanafninu Isak Dinesen (Babette's Feast and Other Stories, Shadows on the Grass, Seven Gothic Tales, Winter's Tales og Last Tales). Hún var frábær sögumaður, best þekkt fyrir bók sína Out of Africa (Jörð í Afríku), sem oft er lýst sem ljóðrænni hugleiðingu um líf hennar í Kenýa þar sem hún átti búgarð, kaffiplantekru (í bókinni er engin tímaröð). Flestir þekkja til Blixen vegna kvikmyndar Sydney Pollack: Kvikmyndin kann að gefa ykkur hugmynd að lífi Blixen í stórkostlegu landslagi Afríku, en aðeins með því að lesa bókina kynnist þið hinu sanna andrúmslofti. Fyrir mér er bókin lýsing á Afríku sem ég kem aldrei til með að upplifa. Löngu horfnu tímabili.

Í minnisbók hef ég skrifað tilvísun eftir Blixen. Spurð að því hvernig saga hefst fyrir rithöfund svaraði hún á dönsku:
Det begynder med atmosfære, et landskab, der for mig er vidunderligt skønt, og så – så kommer menneskene pludselig ind i billedet. Med det er de der, de lever, og jeg kan lade dem leve videre i bøgerne.
Það þarf varla að þýða þetta en hún er í raun að segja að fyrst sé það andrúmsloft, landslag, sem henni finnst dásamlegt og svo skyndilega kemur fólk inn í myndina. Þar með er það þar, lifir, og hún getur leyft því að lifa áfram í bókunum. (Ég fann tilvísunina á FB-síðunni Karen Blixen Museet.)

Í febrúar fengu aðdáendur Blixen frábærar fréttir þegar tilkynnt var um gerð sjónvarpsþáttaraðar eftir bók hennar Out of Africa.

mynd mín | myndin af Karen Blixen er úr bókinni Letters from Africa 1914-1931


mánudagur, 10. apríl 2017

samtal við textílhönnuðinn Lisa FineÞessi orð eru höfð eftir bandaríska ljósmyndaranum, Ansel Adams heitinum: „You don't make a photograph just with a camera. You bring to the act of photography all the pictures you have seen, the books you have read, the music you have heard, the people you have loved.“ Orð hans eiga við hvers kyns skapandi listir og ég notaði þau til að hefja samræður við textílhönnuðinn Lisa Fine í gegnum tölvupóst. Á blogginu hef ég þegar lýst henni sem hönnuði með skilning á sögu og stend við þau orð. Hún er lagin með liti og mynstur; það virðist sem hvert efni frá Lisa Fine Textiles segi sögu. Hún er fædd og uppalin í Mississippi. Nú býr hún í New York ásamt hundunum sínum og ferðast víða, oft til Indlands eða annarra framandi staða. Smálistaverk hafa innblásið feril hennar, einnig listmálarinn Henri Matisse.

Þar sem umræðuefnið er ekki flókið finnst mér óþarfi að þýða svör hennar yfir á íslensku. Þar sem það er mögulegt, einnig í beinum tilvísunum, hef ég sett inn tengla á t.d. stuttar ritgerðir á vefsíðum listasafna sem mér fannst áhugaverðar og fræðandi. Fyrir utan málverkin eftir Matisse valdi ég myndirnar í færslunni.

[Mynstur frá Lisa Fine Textiles sem sjást á efstu myndinni (smellið fyrir nánari upplýsingar): Cairo,
Kashgar, Luxor, Malabar, Malula, Mandalay, Pasha og Rajkot. Sjá bækur neðar í færslunni.]

Persneskt smálistaverk: Mir Sayyid 'Ali, Night-time in a City, ca. 1540, Tabriz, Íran, Safavid-tímabilið

Svo við víkjum aftur að orðum Adams, hvað hefur sett mark sitt á hönnuðinn Lisa Fine (í ljósi alls sem hún hefur uppgötvað í gegnum vinnu sína og ferðalög).
LF: My life is very much about people, however, books and art not only inspire and teach but are the best refuge.

My favorite painter is Matisse. I love his mix of color and pattern, especially in his orientalist portraits. Irving & Fine [samstarf við textílhönnuðinn Carolina Irving] peasant blouses were very much inspired by his work. I also love the Fauvism movement.
Tveir aðrir listamenn eru einnig í uppáhaldi hjá henni, Kees Van Dongen og Amedeo Modigliani.

Henri Matisse, Zorah on the Terrace, 1912

Hún á ekki eitt uppáhaldsverk eftir Matisse en sagði: „I love his Moroccan period most, especially the portraits.“ Síðar fann ég verk hans Zorah on the Terrace í pósthólfinu mínu með orðunum: „Love Moroccan portraits.“ Hin tvö verkin eftir Matisse fylgdu á eftir, verkið hér að neðan með orðunum: „Love odalisque series.“

laugardagur, 1. apríl 2017

litrík efni frá Lisa Fine TextilesMótíf, mynstur, textíll, litir. Nýverið barst mér dágóður skammtur af prufum frá Lisa Fine Textiles og hef því eytt latte-stundum mínum með handprentuð, litrík efni breidd yfir skrifborðið mitt ásamt textílbókum, eins og myndirnar mínar sýna. Hérna höfum við þrjú mynstur sem Lisa Fine kynnti í fyrra, Kalindi, Cochin og Ayesha Paisley, sem eru falleg viðbót í safn hennar af framandi efnum, sem öll eru innblásin af ferðalögum hennar. Bráðum hyggst ég deila með ykkur stuttum samræðum sem ég átti við Lisa Fine sjálfa í gegnum tölvupóst, um bækur, list og hvaðan hún sækir innblástur.

Cochin frá Lisa Fine Textiles, litur í forgrunni: rose

Af þessum þremur efnum er Cochin með blómamynstrinu sú hönnun sem nú þegar á hjarta mitt og sál, einkum í litnum rose sem hefur saffrangulan bakgrunn. Mynstrið er handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni, fáanlegt í fjórum litum: rose, cinnabar (þetta rauða og bláa, sjá mynd að ofan, efst til hægri), burnt sugar og saffron (með bleikum blómum). Hönnun Lisa Fine ber gjarnan indversk nöfn. Cochin er nýlenduheiti indversku borgarinnar Kochi, á suðvesturströndinni í Kerala-héraði.

Ayesha Paisley, litur í forgrunni: ruby

Ayesha Paisley mynstrið er handprentað á 100% náttúrulegt lín, fáanlegt í fjórum litum: ruby, sapphire, coral og spinel (ég á ekki prufu af þessu síðastnefnda).

Ayesha Paisley, í forgrunni: sapphire

Í forgrunni: Kalindi í öllum fáanlegum litum (undir bollanum mínum eru tvær prufur af mynstrinu Luxor)

Efnið Kalindi er með blómamynstri ásamt doppum, handprentað á 90% náttúrulegt lín með 10% næloni. Það er fáanlegt í fimm ríkum litum: monsoon (þetta ljósbláa), indigo, saffron, dusty rose og lipstick. Ég geri ráð fyrir að mynstrið sé nefnt eftir ánni Kalindi í West Bengal-héraði í austurhluta Indlands.

Til að skoða öll efnin kíkið þá á heimasíðu Lisa Fine Textiles.


Kannski eru einhverjir lesendur í þeim hugleiðingum að gefa einu rými upplyftingu eða jafnvel að hugsa um að endurhanna heimilið. Í viðtali sem birtist í tímaritinu Lonny, þegar gestaíbúð hennar á Vinstri bakka Parísar var til umfjöllunar, gaf Lisa Fine eitt mjög gott ráð: „Never be a victim of trends. If modern is in style and you love Victorian, go Victorian. Style is an expression of yourself and not what fashion dictates“ (Inspiration India, des/jan 2010). Forðist sem sagt tískusveiflur og látið ykkar eigin persónulega stíl ráða för. Í sömu umfjöllun deildi hún nokkrum hugmyndum um hönnun og hér er ein sem gæti komið ykkur á byrjunarreit: „Similar to how many designers will start with a rug and then build a room, choose a fabric to inspire the space and work from there.“ Val mitt á efni væri augljóst.


miðvikudagur, 22. mars 2017

nellikur á skrifborðinu mínuUm daginn vorum ég og sonurinn að borða morgunmat þegar hann spurði mig hver væru uppáhaldsblómin mín. Án umhugsunar svaraði ég nellikur (á borðinu var vasi með gulum). „Af hverju?“ spurði hann. „Af því þær eru svo endingargóðar,“ sagði ég „þær lifa svo lengi.“ Fyrir nokkrum árum síðan hefði ég svarað hvítir túlipanar eða bóndarósir (sem ég kalla alltaf peóníur). Þegar ég hugsa um það þá get ég varla gert upp á milli þessara þriggja, en nellikur eru blóm sem ég kaupi oftast (Spánverjar vissu hvað þeir sungu þegar þeir völdu rauða nelliku sem þjóðarblóm). Ég tók þessa mynd í morgun þegar ég var að njóta lattebolla með múskati. Nellikur og bókastaflar eru algeng sjón á skrifborðinu mínu. Njótið þessa miðvikudags!


mánudagur, 20. mars 2017

№ 8 bókalisti | norðurkóreskar sögur eftir BandiEr ekki tilvalið að deila nýjum bókalista á þessum fyrsta vordegi? Þrjár bókaútgáfur, Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail, útveguðu fyrstu þrjár bækurnar á listanum og fyrir það ber að þakka. Síðar mun ég birta ritdóma um skáldsöguna Pachinko og dagbók Astrid Lindgren, A World Gone Mad, sem hún skrifaði á stríðsárunum, en í dag langar mig að beina athygli ykkar að einstöku norðurkóresku smásögusafni, The Accusation eftir Bandi (skáldanafn). Höfundurinn, óþekktur, býr enn í Norður Kóreu og hætti lífi sínu með skrifunum og því að smygla þeim úr landi (sjá meira hér að neðan). Þetta er № 8 bókalistinn:

· Pachinko  eftir Min Jin Lee
· A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45 
· The Accusation  eftir Bandi
· Seize the Day  eftir Saul Bellow
· The Blue Touch Paper  eftir David Hare
· Another Country  eftir James Baldwin
· Pale Fire  eftir Vladimir Nabokov
· The Sea, The Sea  eftir Iris Murdoch


Seize the Day er fyrsta verkið sem ég les eftir Saul Bellow - löngu tímabært! Vinur á Instagram og bókaormur sagði það vera „incredible“ og bætti við „it's haunted me most of my adult life.“ Ég ætlaði að byrja á Herzog en hún var ekki fáanleg á bókasafninu. Leikskáldið David Hare er í miklu uppáhaldi. Að hlusta á hann tala um skrif er hrein unun og loksins ætla ég að lesa æviminningar hans. Hann skrifaði til dæmis handrit kvikmyndarinnar The Hours (2002), sem byggist á skáldsögu Michael Cunningham. Yndisleg bók, yndisleg mynd. Ég er að endurlesa eina bók á listanum: The Sea, The Sea eftir Murdoch. Ég var líklega of ung þegar ég las hana því ég virðist afskaplega lítið muna eftir henni.

Bannaðar sögur frá Norður Kóreu: The Accusation eftir Bandi

The Accusation eftir Bandi inniheldur sjö sögur um venjulegt fólk í Norður Kóreu. Bandi (eldfluga á kóresku) er skáldanafn hins óþekkta höfundar og til að vernda hann enn frekar var nokkrum smáatriðum breytt. Í athugasemd frá útgefanda er tekið fram að þau telji verkið vera „an important work of North Korean samizdat literature and a unique portrayal of life under a totalitarian dictatorship“ (samizdat merkir að prenta og dreifa bönnuðum ritum í einræðisríkjum). Fyrir utan það sem við sjáum í fréttum þá höfum við bara kynnst frásögnum og ritum fólks sem tekist hefur að flýja landið. Það sem gerir þessa bók einstaka er að í fyrsta sinn höfum við sögur eftir rithöfund sem býr þar enn. Í stað formála og þakkarorða eru ótitluð ljóð eftir höfundinn, sem lýsir sjálfum sér á þessa leið í hinu fyrrnefnda: „Fated to shine only in a world of darkness“. Hið síðarnefnda inniheldur ljóð sem fjallar um þá ósk hans að orð hans séu lesin:
Fifty years in this northern land
Living as a machine that speaks
Living as a human under a yoke
Without talent
With a pure indignation
Written not with pen and ink
But with bones drenched with blood and tears
Is this writing of mine

Though they be dry as a desert
And rough as a grassland
Shabby as an invalid
And primitive as stone tools
Reader!
I beg you to read my words.
Það sem ég vildi að allur heimurinn læsi þessar sögur og að Bandi gæti einn daginn notið höfundalaunanna sem frjáls maður. Ég er ekki búin með bókina en það sem ég hef lesið fram að þessu er harmþrungið. Félagslegar- og pólitískar aðstæður í Norður Kóreu, og skortur á mannréttindum, er eitthvað sem þekkjum, en þegar maður les sögur eftir einstakling sem býr við slíkar aðstæður þá skyndilega verður ástandið enn raunverulegra og sársaukafyllra.

The Accusation
Eftir Bandi
Serpent's Tail
Innbundin, 256 blaðsíður
KAUPA

Utagawa Hiroshige, A Red Plum Branch against the Summer Moon, c. upp úr 1840, viðarprent í lit

Næsti bókalisti verður sá japanski sem ég hef þegar minnst á hér á blogginu. Mér þótti því við hæfi að deila líka verki eftir japanska listamanninn Utagawa Hiroshige (einnig Andō Hiroshige, 1797-1858). Tré í vorblóma, mon dieu! Bráðum get ég drukkið latte á veröndinni og lesið undir bleikum blómum kirsuberjatrés ... gæðastund í lífi bókaunnanda.

myndir mínar | listaverk Utagawa Hiroshige er af vefsíðu The Art Institute of Chicago | fyrstu þrjár bækurnar á bókalistunum eru í boði bókaútgáfanna: Head of Zeus (Apollo), Pushkin Press og Serpent's Tail


þriðjudagur, 7. mars 2017

ár af lestri - 2. hlutiEigum við að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í færslunni Ár af lestri - 1. hluti, þar sem ég setti niður hugsanir mínar um verk sem voru á bókalistunum mínum í fyrra? Eins og ég tók fram þar þá minnist ég ekki á bækur sem ég hef þegar fjallað um og þær sem ég endurlas. Bókalistarnir fara bara eftir skapi hverju sinni og þær bækur sem enda á þeim hafa verið í lengri eða skemmri tíma á langar-að-lesa listanum mínum (sem verður sífellt lengri og lengri!). Nokkrar bækur ollu mér vonbrigðum en það mátti svo sem búast við því. Hér á eftir er álit mitt á nokkrum sem voru á № 4, 5 og 6 bókalistunum:

№ 4 bókalisti (4 af 10):
· Siddhartha eftir Hermann Hesse. Þetta klassíska rit er líklega áhugaverðara fyrir þá sem eru að taka fyrstu skrefin á andlegri braut eða þekkja ekki til búddisma og austrænnar heimspeki. Lesturinn gerði lítið fyrir mig og ég kláraði bara bókina til þess að geta hakað við hana á listanum mínum. (Fyrir þá sem vilja fræðast um búddisma mæli ég frekar með almennu riti eftir kennara í fræðunum. Til að gefa ykkur hugmyndir þá eru hérna nokkrir sem ég las á ákveðnu tímabili í lífinu: Thich Nhat Hanh, Joseph Goldstein, Jack Kornfield, Sharon Salzberg og Pema Chödrön.)
· The Summer Book og A Winter Book eftir Tove Jansson. Þegar ég deildi listanum hafði ég lesið tvær sögur í þeirri síðari en var komin langt inn í þá fyrri, sem mér fannst yndisleg. Sögusafnið í The Summer Book er sterkara og sögurnar tengjast betur saman, einkum vegna sömu eftirminnilegu persónanna.
· In Other Rooms, Other Wonders eftir Daniyal Mueenuddin. Leið eins og ég væri með fjársjóð í höndunum þegar ég hóf lesturinn en svo varð söguþráðurinn í þessum lauslega tengdu smásögum fyrirsjáanlegur. Það er svo mikil spilling og óréttlæti á síðunum að ég var farin að þrá að lesa eitthvað meira upplífgandi. Ég var að vonast til að þessi bók kenndi mér meira um pakistanska menningu, og vegna allra jákvæðu dómanna sem bókin fékk bjóst ég við einhverju ríkara.
[Önnur af listanum: The Little Book of Hygge eftir Meik Wiking (sjá sér bloggfærslu).]


№ 5 bókalisti (4 af 7):
· A Time for Everything eftir Karl Ove Knausgård. Ekkert að skrifunum en ég ákvað að klára ekki bókina einfaldlega vegna þess að ég var ekki í skapi fyrir hana. Þetta er bók um engla og hann breytir sjónarsviði biblíusagna; fer með okkur úr eyðimörkinni í norskt landslag. Einn daginn held ég kannski lestrinum áfram en fyrst myndi ég vilja lesa að nýju upprunalegu sögurnar.
· White Teeth eftir Zadie Smith. Bókin sem mig langaði svo að þykja góð og mæla með. Ég hef ekki enn klárað hana. Mér líkar ritstíllinn en persónurnar vekja ekki áhuga minn. Stundum tek ég hana upp - með semingi, verður að viðurkennast - og eftir nokkrar síður gefst ég upp. Mér fannst perónusköpun hennar í bókinni NW miklu áhugaverðari. Í þeirri bók gerir Smith tilraunir með skáldsöguformið sem er kannski ekki öllum að skapi. Ég átti svolítið erfitt með fyrsta hlutann af NW en þegar ég kom í annan hlutann þá gat ég varla lagt hana frá mér.
· Purple Hibiscus eftir Chimamanda Ngozi Adichie. Yndislegur frásagnarstíll og persónusköpun í þessu fjölskyldudrama sem stundum sjokkeraði mig - faðirinn er trúarofstækismaður sem beitir heimilisofbeldi. Fyrir viðkæma lesendur langar mig að bæta við að þarna er líka fegurð og von. Adichie hefur þann hæfileika að geta lýst skelfilegum atburði en í kjölfarið virðast fallegar setningar hennar bæði róa og græða. Þessi bók hefur ekki farið úr huga mér síðan ég kláraði hana. Adichie er auk þess í miklu uppáhaldi.
[Önnur af listanum: Avid Reader eftir Robert Gottlieb (sjá sér bloggfærslu).]

№ 6 bókalisti (4 af 8):
· The Noise of Time eftir Julian Barnes. Mér fannst fyrstu tveir hlutarnir góðir en held að þetta sé ein af þessum bókum sem ég mun gleyma. Barnes ímyndar sér líf tónskáldsins Dmitri Shostakovich á tímum Stalíns. Bókin gerði lítið fyrir mig og að lestri loknum tók ég bara upp þá næstu.
· All We Shall Know eftir Donal Ryan. Ég minntist á í færslunni að mér líkaði ritstíll hans. Hlutar þessarar bókar eru svolítið myrkir; ég held að ég hafi stundum haldið niðri í mér andanum. Mér fannst persónan Mary stela senunni; hún var miklu áhugaverðari en aðalpersónan Melody. Galli bókarinnar er endirinn. Allt er mögulegt í skáldskap en sögulokin hér gengu ekki upp (get ekki sagt meira án þess að gefa þau upp). En Ryan er höfundur sem er kominn á listann minn og mig langar að lesa fyrri verk hans.
· Boyhood Island: My Struggle 3 eftir Karl Ove Knausgård. Af þeim þremur My Struggle-bókum sem ég hef lesið finnst mér þessi vera hans sísta. Styrkleikar hennar eru sú mynd sem hann málar af föðurnum sem hann hataði (skiljanlega) og samskiptum fjölskyldunnar. Veikleikarnir eru alltof margar endurteknar lýsingar á leikjum við krakka í nágrenninu og skólafélaga. Þessi bók hefði getað verið 100 síðum styttri og betri.
· The Return eftir Hisham Matar. Ein af þessum bókum sem ég hlakkaði til að lesa en fyrir utan fyrstu fimm kaflanna varð ég fyrir vonbrigðum. Ritstíll þessara fyrstu fimm kafla, sem er ólíkur hinum, var mér að skapi og það var ekki fyrr en eftir lesturinn að ég vissi að þeir birtust að hluta til í grein í tímaritinu The New Yorker, sem kallast „The Return“, en hana skrifaði Matar árið 2013, fyrir útgáfu bókarinnar. Svo ég leyfi mér að vera alveg hreinskilin, lesið bara greinina.
[Önnur af listanum: The Makioka Sisters eftir Jun'ichirō Tanizaki (sjá sér bloggfærslu).]

Þá er þetta komið, ég er búin að gera athugasemdir við bækurnar á bókalistum ársins 2016.

Í ár ætla ég að hafa annað fyrirkomulag á þessu og deila hugsunum mínum fyrr, en ég læt samt einhvern tíma líða á milli þess sem ég birti bókalista og svo áliti mínu á verkunum sem eru á honum.


föstudagur, 24. febrúar 2017

ár af lestri - 1. hlutiHérna kemur hún, færslan sem ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa eða ekki, með athugasemdum um nokkrar bækur á bókalistunum mínum árið 2016. Fyrst ætlaði ég að setja þessa punkta í athugasemdakerfi umræddrar bókalistafærslu en svo fannst mér betra að halda þessu aðskildu. Ég sé enga ástæðu til að endurtaka það sem ég hef þegar sagt um ákveðnar bækur eða að minnast á þær sem ég endurlas; einu bækurnar sem ég les aftur eru þær sem mér líkar eða eiga sérstakan sess í hjartanu.

Talandi um endurlestur: Skoski rithöfundurinn Ali Smith var nýlega í By the Book-dálki NYT og ég fann samhljóm með einu sem hún sagði:
[A] rereading can feel like a first-time read in itself, which is another great thing about books and time; we think we know them, but as we change with time, so do they, with us. (Sunday Book Review, 12. feb. 2017)
Ég las þetta í fyrradag og tók eftir því að hún minntist á bókina Pale Fire eftir Vladimir Nabokov. Ef þið fylgið mér á Instagram þá sáuð þið hana kannski á mynd sem ég deildi á sunnudaginn. Það vill svo til að ég fékk hana lánaða á bókasafninu síðasta laugardag og hún verður á næsta bókalista.


Hér að neðan eru nokkrar athugasemdir um bækur sem voru á № 1, 2 og 3 bókalistunum. Á þeim fyrsta voru líka hönnunarbækur en ég ákvað síðar að á þá rötuðu eingöngu skáldsögur sjálfs/ævisögur, ferðaskrif o.s.frv. Mig langar að bæta því við að það er ekki tilgangur minn að beina ykkur frá þeim bókum sem ég geri neikvæðar athugasemdir við eða þeim sem ég kláraði ekki. Bókmenntasmekkur okkar er ólíkur, eins menningarlegur og félagslegur bakgrunnur, og ég hef svo sannarlega ekki áhuga á því að gegna valdshlutverki og segja fólki hvað það eigi að lesa og hvað ekki. En málið er að ég á blogglesendur sem nota listana til að fá lestrarhugmyndir og því finnst mér eðlilegt að ég minnist á þær bækur sem kannski stóðust ekki væntingar mínar.

№ 1 bókalisti (2 af 8):
· The Shadow of the Sun eftir Ryszard Kapuscinski. Las nokkra kafla og setti svo til hliðar, einungis vegna þess að mig hefur lengi langað að lesa bókina Africa eftir John Reader og vildi gera það áður en ég læsi aðrar Afríku-tengdar bækur á langar-að-lesa listanum. Kapuscinski var pólskur fréttamaður sem skrifaði um Afríku í nokkra áratugi og ég held að einn daginn eigi ég eftir að klára þessa bók hans.
· The Great Railway Bazaar eftir Paul Theroux. Mestu vonbrigði ársins 2016 í lestri. Bókin byrjar virkilega vel og Theroux er bæði eftirtektarsamur og fyndinn - ég gat varla lagt bókina frá mér. Á einhverjum punkti verður hann þreytandi, eins og hann geti ekki gert annað en að kvarta. Ég missti bæði áhugann og þolinmæðina og hætti lestrinum. Þegar ferðaskrif fylla mig engri löngun til að ferðast þá fær sá höfundur ekki pláss í bókahjartanu mínu.

№ 2 bókalisti (1 af 6):
· Off the Road eftir Carolyn Cassady. Missti þolinmæðina og gafst upp. Alltof opinberandi og ekki á góðan máta. Tímarnir voru öðruvísi en ég var gáttuð á því hvernig hún leyfði Neal að koma fram við sig strax í upphafi sambands þeirra. Fyrstu kaflarnir eru ágætis lexía í því hvernig ekki skuli velja eiginmannsefni.
[Önnur af listanum: Testament of Youth eftir Vera Brittain (sjá sér bloggfærslu).]


№ 3 bókalisti (2 af 6):
· Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir. Fyrsta bindi sjálfsævisögu hennar þar sem hún fjallar um uppvaxtarárin, barnæskuna í París og árin í Sorbonne-háskóla. Það eina sem ég fann að bókinni var alvarlegur frásagnarstíllinn; mér fannst hún nota of vitsmunalegan tón til að lýsa hugsunum barns, sem truflaði mig ekki eftir því sem hún varð eldri. Næstu þrjú bindi munu rata á bókalistana mína í framtíðinni.
· Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement. Að mínu mati, ofmetin. Í byrjun er sögumaðurinn ung stelpa sem er vísun á auðveldan lestur með einföldum orðaforða, og það er nóg um kímni (móðirin er óborganleg!). Þegar ég var komin inn í þriðja eða fjórða hluta bókarinnar (þegar stelpan fer að heiman) þá fannst mér höfundurinn misstíga sig; það var sem hún hætti að vanda sig. Þessi bók var ein þeirra sem mig virkilega langaði að finnast góð til að geta mælt með henni en í lokin olli lesturinn vonbrigðum.

Bráðum birti ég 2. hluta þar sem ég tek fyrir nokkrar bækur á № 4, 5 og 6 bókalistunum.

[Uppfærsla: smellið hér fyrir 2. hluta.]


mánudagur, 13. febrúar 2017

lokasetning eftir Tanizaki | Virginia WoolfÉg veit ekki með ykkur en í bókabúðum stend ég mig oft að því að lesa fyrstu setningu bókar eða fyrstu málsgreinina. Ég kíki aldrei á lokasetninguna því ég vil ekki vita hvernig bókin endar, en ég þekki nokkra sem gera það. Í janúar kláraði ég að lesa The Makioka Sisters eftir japanska rithöfundinn Jun'ichirō Tanizaki (1886-1965), í þýðingu Edward G. Seidensticker (útgáfa frá Everyman's Library). Án þess að gefa upp sögulokin þá verð ég að deila með ykkur lokasetningunni, sem óþarfi er að þýða: „Yukiko's diarrhea persisted through the twenty-sixth, and was a problem on the train to Tokyo“ (bls. 498).

Þurfið þið að lesa þessa setningu aftur? Ég þurfti þess.

Í hvert sinn sem ég lýk lestri bókar þá koma venjulega upp í hugann persónur, söguþráður og -lok, þemu o.s.frv., og stundum skrifa ég kannski nokkrar línur í minnisbókina mína. Í þetta sinn var hugurinn eitthvað á þessa leið, Okei, vantar kafla í bókina? Er þetta endirinn? Ég meira að segja sneri bókinni við - ég held að ég hafi rólega hrist hana - til að finna kaflann sem vantaði. Þegar ég svo loksins áttaði mig á því það var ekkert meira, að þetta var lokasetningin, þá sprakk ég úr hlátri. Þetta er ein sú eftirminnilegasta lokasetning sem ég hef nokkurn tíma lesið.

Ég fæ enn hláturkast þegar ég horfi á þessa síðu; þessi lokasetning kemur úr svo óvæntri átt.

Prósi bókarinnar The Makioka Sisters er mjög róandi (á meðan lestrinum stóð sagði ég við vini að þetta væri stundum eins og hugleiðsla). Ég man ekki eftir bók með svo rólegum prósa. Hún er nokkuð löng, skiptist í þrjá bækur, en ég naut þess að lesa hana. Í aðalatriðum fjallar hún um leit Makioka-fjölskyldunnar að eiginmanni fyrir þriðju systurina þannig að hægt sé að gifta þá fjórðu og yngstu, sem er þegar komin með vonbiðil. Þemað er eins og í hvaða skáldsögu sem er eftir Jane Austen en stíllinn er gjörólíkur. Þetta er áhugaverð samfélagsskoðun, á japanskri menningu og siðum, á ákveðnu tímabili: Bókin hefst árið 1936 og lýkur í apríl 1941; stríð geisar þegar í Evrópu en árásin á Pearl Harbor hefur enn ekki átt sér stað. Þegar lestrinum lýkur þá veit maður að stórkostlegar breytingar eru í vændum.

The Makioka Sisters var á № 6 bókalistanum mínum og þá sagðist ég vera að nóta hjá mér hugmyndir að japönskum lista. Á honum munuð þið finna The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu, klassískt japanskt verk frá 11. öld, sem margir telja fyrstu skáldsögu heimsins, sem Tanizaki þýddi yfir á nútímalegra japanskt mál. Á listanum verður líka Some Prefer Nettles eftir Tanizaki - ég segi ekki meira þar til ég birti hann.

Úr umfjöllun um Virginia Woolf, „Bloomsbury & Beyond“, Harpar's Bazaar UK, mars 2017, bls. 324-25

Kannski hafið þið þegar séð Vanessa Bell-umfjöllunina sem ég deildi á Instagram í síðastu viku, úr Harper's Bazaar UK, marstölublaðinu 2017. Það eru mánuðir síðan ég keypti tískutímarit en ég næstum hljóp út í búð þegar ég sá að bæði Bell og systir hennar Virginia Woolf voru í menningarþættinum. Umfjöllunin um Woolf kallast „Bloomsbury & Beyond“ og byrjar á ljósmynd af skrifborðinu hennar í Monk's House, heimili hennar í Sussex (sjá efstu myndina mína), og lýkur með smásögunni The Lady in the Looking Glass, sem birtist í janúartölublaðinu 1930. Ódýr Penguin-útgáfa af The Lady in the Looking Glass inniheldur líka sögur hennar A Society, The Mark on the Wall, Solid Objects og Lappin and Lapinova. Sú síðasta birtist í apríltölublaðinu 1939, en hún sést efst í vinstra horninu á myndinni minni hér að ofan. Ef þið hafið áhuga á smásögum þá má held ég finna allar eftir Woolf á netinu.

myndir mínar | heimildir: Harper's Bazaar UK, mars 2017 · Harry Cory Wright | Frakklandskort úr bókinni Map Stories: The Art of Discovery eftir Francisca Mattéoli (Octopus Publishing Group) © Bibliothèque Nationale de France