miðvikudagur, 17. ágúst 2016

Store Street Espresso, Bloomsbury, LondonÍ síðustu viku brugðum við okkur til London og ég komst á sýninguna á verkum listakonunnar Georgia O'Keeffe í Tate Modern-safninu - ekki að ræða það að ég ætlaði að missa af henni! Ég þurfti á borgarferð að halda fyrir haustið. Við borðuðum á Wild Food Cafe í Neal's Yard, gengum um Covent Garden, Westminster og St. James's Park, og fórum í Whole Foods Market á Kensington High Street, sem má kalla matarheimilið okkar í London. Börnin spurðu meira að segja áður en við lögðum í hann, Við förum í WFM, er það ekki? Og við drukkum kaffi. Í hjarta Bloomsbury fékk ég besta lattebollann. Ég hafði lofað einum kaffinörd að fara á Store Street Espresso á 40 Store St (í raun í Fitzrovia-hverfinu). Þetta var loforð sem ég uppfyllti með glöðu geði á rölti okkar um Bloomsbury/Fitzrovia og kaffihúsið stóð undir væntingum mínum.Ég var undir áhrifum Bloomsbury-hópsins þegar ég steig inn í Store St Espresso. Við höfðum gengið frá Bloomsbury St inn í Gower St og á húsi nr. 10 sá ég bláa plattann hennar lafði Ottoline Morrell. Ég vissi af honum þarna en samt tók hjartað kipp. Hún var ekki beint hluti af hópnum en hún studdi við listamenn og ef þið hafið t.d. lesið dagbækur og bréf Virginia Woolf þekkið þið nafn Ottoline. Þetta var hugarástandið þegar ég pantaði mér latte.

Þetta var mjög hlýr og sólríkur dagur í borginni og við höfðum labbað ansi mikið þegar ég settist niður og tók fyrsta sopann, sem var himneskur. Store St Espresso er kaffihús mér að skapi. Stíllinn er mínimalískur, hrár og örlítið iðnaðarlegur. Andrúmsloftið er gott; afslappað. Gestirnir virðast vera í sínum heimi, í tölvunni, símanum eða lesandi. Sumir myndu örugglega kalla þetta stað fyrir hipstera en á meðan ég sat þarna sá ég allar týpur af fólki sem áttu það eitt sameiginlegt að njóta góðs kaffis.


Staðsetning Store St Espresso er frábær. Gatan er róleg, nálægt görðum og The British Museum. Ég hvet ykkur til að grípa kaffibolla ef þið eruð í hverfinu. Enn betra ef þið setjist niður. Það er notalegur gluggakrókur fyrir þá sem vilja fylgjast með götulífinu og í góðu veðri má sitja utandyra.


Ég er ekki alveg búin með ferðina hér á blogginu en ég fékk svo sannarlega London-skammtinn minn. Hugurinn ráfar enn um götur Bloomsbury og mér er hugsað til Virginia Woolf og vinahóps hennar. Hann ráfar líka um Tate, að dást að málverkum O'Keeffe. Til allrar lukku fór skoska sumarið í sparifötin þegar við komum heim þannig að ég gat byrjað að skrifa þetta á veröndinni með kaffibolla og klárað fyrir framan húsið, við hliðina á hydrangea-blómunum, þar sem ég naut sólsetursins.

Það sem ég elska svona ágústdaga!TENGDAR FÆRSLUR  

fimmtudagur, 28. júlí 2016

síðsumars bókalistiMér fannst vera kominn tími á annan bókalista, einn síðsumars. Ég á að vísu eftir að klára Virginia Woolf bækurnar á þeim síðasta; ég les ekki bréf hennar eða dagbókafærslur í einni lotu. Á nýja listanum mínum eru tvær bækur sem mig langaði að lesa aftur, Love in the Time of Cholera, sem ég hafði bara lesið í íslenskri þýðingu (Ástin á tímum kólerunnar) og The Sheltering Sky (fyrr í sumar sá ég kvikmynd Bertolucci aftur og varð því að lesa bókina aftur). Ég elska ævisögu Patti Smith, Just Kids. Það er hrein unun að lesa ritstíl hennar. Hér er síðsumars listinn:

· Just Kids eftir Patti Smith
· Love in the Time of Cholera eftir Gabriel García Márquez
· My Life on the Road eftir Gloria Steinem
· Memoirs of a Dutiful Daughter eftir Simone de Beauvoir
· The Sheltering Sky eftir Paul Bowles
· Prayers for the Stolen eftir Jennifer Clement

Ég var að klára að lesa æviminningar Gloria Steinem, My Life on the Road, og æ, æ, þvílík vonbrigði. Ég hafði ekki lesið neina ritdóma og hélt að ég væri að fara að lesa meistaraverk sem vekti mann til umhugsunar, svona miðað við manneskju af hennar „kaliber“ og markaðssetningu bókarinnar, sem komst á metsölulista New York Times. Ekki misskilja mig, hún hefur heilmikið fram að færa en stór hluti textans er kaótískur og illa skrifaður sem kemur verulega á óvart - þvílík synd! Ég bjóst við meira frá eins reynslumiklum höfundi og ritstýru og Steinem. (Yfirlesturinn hefur farið verulega úrskeiðis. Líklega hefur of mikið af já-fólki komið að honum.) Það er engin tímaröð (í góðu lagi mín vegna) en slíkar æviminningar kalla á vel uppsettan texta sem hjálpar manni að tengja. Stundum er bókin eins og ævisaga, stundum eins og blaðagrein og stundum eins og PowerPoint-skjal með áherslulistum. Örsögur eru fjölmargar, handahófskenndar minningar úr lífi hennar, sem eru illa skipulagðar. Mig langaði oft að hætta lestrinum en ég held að ég hafi haldið honum áfram í þeirri von að bókin batnaði. Fyrir ykkur sem hafið lesið hana þá verð ég að minnast á kaflann um leigubílstjórana: Fyrir utan það að kenna manni mikilvægi þess að virkilega hlusta á fólk þá var lestur hans hrein kvöl. Það eru lítil gullkorn inn á milli, t.d. virkilega fallegur texti um vinkonu sem hún missti úr krabbameini, en því miður get ég ekki mælt með þessari bók. Horfið bara á viðtöl og fyrirlestra með Steinem á netinu ef þið viljið kynna ykkur mikilvægt hlutverk hennar. Af nógu er að taka og það efni mun veita ykkur meiri innblástur.


Mér finnst dásamlegt að snúa mér aftur að Gabriel García Márquez, en bækur hans hef ég aldrei lesið á ensku áður. Ég ákvað að byrja á Love in the Time of Cholera og lesa svo næst One Hundred Years of Solitude (kom líka út í íslenskri þýðingu). Ég fékk þá fyrri á bókasafninu en er að hugsa um að eignast þessa fallegu innbundnu útgáfu af hinni síðari.

Og að lokum, áfram Hillary Clinton!


fimmtudagur, 14. júlí 2016

Testament of Youth eftir Vera BrittainÞann 1. júlí þegar þess var minnst að hundrað ár voru liðin frá orrustunni við Somme vildi það svo til að ég var að lesa síðustu síðurnar í Testament of Youth, sjálfsævisögu frá tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar eftir skáldkonuna, femínistann og friðarsinnann Vera Brittain (1893-1970). Draumur hennar um að nema við Oxford rætist þegar styrjöldin brýst út og eftir eitt ár í Sommerville College gerir hún hlé á námi sínu til þess að gerast sjálfboðaliði í hjúkrun. Með aðstoð dagbókarfærslna og bréfa lýsir bókin hryllingi stríðsins og eftirmálum - hún missti unnusta, bróður og vini. Bókin var fyrst gefin út árið 1933 og hefur allar götur síðan náð til nýrrar kynslóðar lesenda.

Kvikmyndin Testament of Youth (2014) er byggð á bókinni og skartar leikkonunni Alicia Vikander í aðalhlutverki, sem tekst vel að koma alvarlegum tón Brittain til skila. Ég verð að minnast á myndina og um leið beygja þá reglu að nota bara mínar eigin myndir á blogginu með því að deila hluta af fallegri leikmyndinni: Leikmyndahönnuðurinn Robert Wischhusen-Hayes á heiðurinn af svefnherberginu og dásamlegum munum bókaormsins í húsi foreldra hennar í Buxton, Derbyshire.


Saga Brittain flokkast ekki undir skemmtilestur. Hún er alvarleg og tilfinningaþrungin, fjallar um ást og vináttur á stríðstímum, og hvernig stríð stelur æskunni og þvingar ungt fólk til þess að þroskast hraðar en það ætti að gera. Stundum skildi ég ekki hvernig Vera hélt út sem sjálfboðaliði. Vinnutíminn, álagið, aðstæðurnar; þetta fór langt út fyrir þreytumörk - hún starfaði í Englandi, á Möltu og í Frakklandi. Ofan á þetta hvíldi svo stöðugur ótti um að missa einhvern náinn:
Even when the letters came they were four days old, and the writer since sending them had had time to die over and over again. (bls. 121)
Oftar en einu sinni bugaðist hún eða veiktist en alltaf reis hún upp að nýju og hélt áfram. Það gerði hún fyrir þá sem hún hafði misst og þá sem enn voru að berjast.


Án þess að dvelja mikið við smáatrði þá kynnist hún Roland Leighton í gegnum bróður sinn Edward áður en hún fer til Oxford. Með hann í fremstu víglínu þróast samband þeirra í gegnum bréfaskrif. Ríkjandi er óttinn um að hann falli í bardaga eða að stríðið gerbreyti honum:
To this constant anxiety for Roland's life was added . . . a new fear that the War would become between us - as indeed, with time, the War always did, putting a barrier of indescribable experience between men and the women whom they loved, thrusting horror deeper and deeper inward, linking the dread of spiritual death to the apprehension of physical disaster. (bls. 122)
Þeir sem hafa séð kvikmyndina muna líklega eftir senu á strönd þar sem Roland verður ofbeldisfullur. Það gerðist ekki í alvörunni heldur var notað til að auka dramatíkina. Í raun átti parið í stuttri rimmu í gegnum bréfaskrif, en mér varð hugsað til þessarar senu þegar ég las þessa tilteknu lýsingu á bróður hennar:
[H]e was an unfamiliar, frightening Edward, who never smiled nor spoke except about trivial things, who seemed to have nothing to say to me and indeed hardly appeared to notice my return. (bls. 324)
Samband systkinanna var fallegt og þarna var Edward mjög ólíkur sjálfum sér. Hann var einn þeirra hermanna sem særðist í orrustunni við Somme og var sæmdur orðu fyrir hugrekki sitt í henni. Hann féll í stríðinu árið 1918. Þegar ég var komin á þennan stað í bókinni fannst mér handritshöfundinum Juliette Towhidi hafa tekist vel til. Þessi sena á ströndinni er ansi mögnuð.


Aftur að bókinni. Þrátt fyrir hrylling stríðsins eru nokkur ánægjuleg stolin augnablik. Í mínu uppáhaldi er það einn daginn þegar Vera hættir fyrr í vinnunni, fer í leikhús og skrifar svo í bréfi til Roland:
Do you ever like to picture the people who write to you as they looked when they wrote? I do. At the present moment I am alone in the hostel common-room, sitting in an easy chair in front of the fire, clad precisely in blue and white striped pyjamas, a dark blue dressing-gown and a pair of black velvet bedroom slippers. (bls. 199)
Frá skotgröfunum svarar hann ástúðlega:
I should so like to see you in blue and white pyjamas. You are always correctly dressed when I find you, and usually somewhere near a railway station, n'est-ce pas? . . . It all seems such a waste of Youth, such a desiccation of all that is born for Poetry and Beauty. (bls. 200)
Þetta var árið 1915 og þau voru trúlofuð. Aðeins nokkrum blaðsíðum síðar er Roland allur. Þýsk leyniskytta varð honum að bana rétt fyrir jólafríið hans þetta sama ár.


Í annarri þáttaröð Downton Abbey er sena í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem Lady Sybil [Findlay] segir við Isobel Crawley [Wilton]: „Stundum finnst mér sem allir þeir menn sem ég hef dansað við séu látnir“ („Sometimes, it feels as if all the men I ever danced with are dead“ - 1. þáttur, á ca. 10 mín.). Þessi setning festist í huga mér. Ég held að það sé vegna þess að Ísland er herlaust og það er ekki hluti af þjóðarminni okkar að senda unga menn í stríð. Þessi gríðarlegi missir og mannlegu fórnir í stríði eru fjarri okkur (ungir menn af íslenskum uppruna í Vesturheimi börðust og létust í stríðinu en það er önnur saga). Við vitum af vopnahlésdeginum en hann er ekki partur af sögu okkar og enginn ber deplasól (rauðan valmúa) í barmi til minningar um fallna hermenn eins og gert er hér í Bretlandi. Síðan ég fluttist hingað finnst mér ég smám saman vera að ná utan um Stríðið mikla, eins og það er kallað, og áhrif þess á breska þjóð. Bók Brittain hjálpaði svo sannarlega að auka skilning minn.

Eftir stríðið fór Vera Brittain aftur til Oxford. Á einum tímapunkti þegar taugarnar og martraðirnar tóku sinn toll voru þetta hugsanir hennar:
Why couldn't I have died in the War with the others? . . . I'm nothing but a piece of wartime wreckage, living on ingloriously in a world that doesn't want me! (bls. 448)
Með tímanum dofnuðu tilfinningaleg ör stríðsins. Hún komst í gegnum þessa reynslu með hjálp Winifred Holtby, vinkonu sem hún kynntist í Oxford (báðar urðu rithöfundar; Holtby lést árið 1935). Vera útskrifaðist, flutti ræður opinberlega fyrir Þjóðabandalagið (League of Nations), gifti sig og gerðist talsmaður friðar.

Kit Harington og Alicia Vikander sem Roland og Vera í Testament of Youth (2014)

1: mynd mín | mynd í bakgrunni af deplasólum er eftir Andrew Montgomery, úr bókinni Country eftir Jasper Conran
2-5: skjáskot mín (stillur af svefnherbergi ófáanlegar) | 6: stilla af vefsíðunni Alicia Vikander.com | heimild: BBC Films, Heyday Films, Screen Yorkshire + BFI | leikstjórn James Kent · handrit Juliette Towhidi · búningar Consolata Boyle


miðvikudagur, 22. júní 2016

að ganga úr eða vera áfram? | bækur um hönnunJá, ég er að vísa til „Brexit“ í titlinum. Á morgun gengur breskur almenningur til þjóðaratkvæðagreislu um veruna í ESB og loksins lýkur þá þessari umræðu! Það er ekki hægt að kveikja á fréttum eða fara eitt né neitt án þess að á manni dynji „ganga úr eða vera áfram“, og þannig hefur þetta verið í margar vikur. Ég efast um að ég höndlaði einn dag til viðbótar af þessu (það hefur rignt í nokkra daga sem gæti líka skýrt takmarkaða þolinmæði mína). Einn tiltekinn pólitíkus kvartaði í ræðu yfir evrópskum vegabréfum og að „við værum að drekka franskt vín“. Ég hugsaði með mér, Já, þarna er komin góð og gild ástæða til að segja sig úr, þá loks fara Bretar að velja breskt vín með fisknum & frönskunum og Yorkshire-búðingnum! Ég er annars í áfram-liðinu (hér í Skotlandi er fólk yfirleitt Evrópusinnað) en tek ekki þátt í þessari umræðu þar sem ég hef ekki kosningarétt. Ég hef aftur á móti rétt á því að vera kaldhæðin.

Eigum við ekki bara að tala um bækur?


Mig langaði að deila með ykkur nokkrum hönnunarbókum sem ég hafa vakið eftirtekt mína; annaðhvort nýkomnar út eða koma út síðar á árinu. Ég bætti athugasemdum við hverja.


· Casa Mexico: At Home in Merida and the Yuctan eftir Annie Kelly
- þessi guðdómlega bók er næst á innkaupalistanum; á vefsíðu Rizzoli má fletta nokkrum síðum í bókinni
· Past Perfect: Richard Shapiro Houses and Gardens eftir Richard Shapiro + Mayer Rus
- ég hef deilt hönnun Shapiro á Tumblr-síðunni og verönd hans á enska blogginu
· Beautiful: All-American Decorating and Timeless Style eftir Mark D. Sikes
- við höfum kíkt inn í stofuna hans og á ensku síðunni deildi ég innliti á heimili hans í Hollywood Hills
· Would You Like to See the House: Unapologetic Interiors eftir Lorraine Kirke
- bóheminn hið innra vill eignast þessa
· Alberto Pinto: Signature Interiors eftir Anne Bony
- á ensku síðunni sáum við málverk eftir Valdés í vinnustofu Pinto
· Decorative Textiles from Arab and Islamic Cultures: Selections from the Al Lulwa Collection
- fylgist með hér á blogginu því ég mun birta ritdóm minn um þessa bók innan tíðarÉg hef takmarkaðan áhuga á fótbolta og fylgist aðeins með Heimsmeistaramótinu á fjögurra ára fresti og búið. En ég get nú ekki annað en glaðst yfir fréttum dagsins, að íslenska liðið sé komið áfram í 16-liða úrslit á Evrópumótinu. Hver hefði trúað þessu?!