mánudagur, 30. október 2017

№ 12 bókalisti ... frá Landi hugmyndanna

№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Ég er mánuði seinna á ferðinni með № 12 bókalistann - þessi bókastafli lítur vel út, ekki satt? - því skyndilega varð ég upptekin við pökkun. Þá meina ég eins og að flytja, til Þýskalands. Ich bin ein Bremer! Þessi yfirlýsing mín vegur ekki alveg jafn þungt og sú frá Kennedy, Ich bin ein Berliner ... nema fyrir okkur fjölskylduna. Við erum að koma okkur fyrir á nýju heimili og að kanna umhverfið okkar. Mitt fyrsta verk var að ganga frá bókunum og útbúa notalegan lestrarkrók, og svo, til að finnast ég virkilega vera komin heim, að setja upp eldhús og gera fyrstu föstudagspizzurnar. Í Bremen er fjöldinn allur af kaffi- og veitingahúsum og þangað sem ég hef komið hefur mér líkað stemningin, afslöppuð og tilgerðarlaus. Ég er þegar búin að kíkja í tvær bókabúðir í miðbænum en á eftir að fara á bókasafn. Vegna flutninganna hefur tími til lesturs verið af skornum skammti en ég er búin með fyrstu tvö verkin á listanum og komin vel áleiðis með nokkur önnur. Þrír útgefendur útveguðu bækur fyrir listann og fyrir það ber að þakka: Canongate [1], Eland Books [2] og Fox, Finch & Tepper [3]. Ég kem til með að gagnrýna þessar þrjár á blogginu síðar meir.

№ 12 reading list:
· South and West: From a Notebook  eftir Joan Didion
· Stay with Me  eftir Ayobami Adebayo [1]
· Travels in a Dervish Cloak  eftir Isambard Wilkinson [2]
· What's Eating Gilbert Grape  eftir Peter Hedges [3]
· The Unwomanly Face of War  eftir Svetlana Alexievich
· Autumn  eftir Ali Smith
· Hitch-22: A Memoir  eftir Christopher Hitchens
· How Fiction Works  eftir James Wood
· Against Interpretation and Other Essays  eftir Susan Sontag


Yfirleitt eru nokkrar bókasafnsbækur á listunum mínum en í þetta sinn eru bækurnar mínar eigin. Íslensk vinkona mín var svo sniðug að gefa mér í afmælisgjöf veglegt gjafakort í Waterstones, sem ég notaði til að kaupa verkin eftir Didion, Sontag, Wood og Alexievich (ef þið fylgist með á Instagram hafið þið kannski tekið eftir því). Síðar var ég að skoða verk eftir Christopher Hitchens heitinn í bókabúð þegar ég rak augun í æviminningar hans, sem höfðu farið fram hjá mér - svo glöð að ég keypti bókina. Að lesa Autumn eftir Smith þetta haust var upplagt og eitthvað segir mér að ég eigi eftir að lesa hennar nýjustu, Winter, á komandi vetri. Ég hef einnig augastað á nokkrum íslenskum titlum sem ég væri til í að fjalla um á blogginu. Og ekki má gleyma nýrri útgáfu þetta haust sem ég er mjög spennt fyrir: nýjustu bók Patti Smith, Devotion. Skrif hennar eru yndisleg.
№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Þessi þrjú verk kem ég til með að gagnrýna síðar:

Bókaútgáfan Canongate sendi frá sér Stay with Me, fyrstu skáldsögu Ayobami Adebayo, sem er ungur rithöfundur frá Nígeríu. Ég ætla rétt að vona að hún sé nú þegar að skrifa aðra bók. Án þess að gefa upp söguþráðinn langar mig að deila sögulýsingunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn eignist aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“

Fox, Finch & Tepper er bókaútgáfa sem sérhæfir sig í útgáfu skáldverka sem þegar hafa fest sig í sessi og eiga það skilið að vera gefin út að nýju. What's Eating Gilbert Grape eftir Peter Hedges er fullkomið dæmi. Ég hafði bara séð kvikmyndina, sem skartar þeim Johnny Depp, Leonardo DiCaprio og Juliette Lewis, og mér finnst bókin frábær. Ritstíll Hedges er dásamlegur.

Frá útgáfunni Eland Books, sem sérhæfir sig í útgáfu ferðarita, kom nýverið bókin Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson. Hann var á unglingsaldri þegar hann kom fyrst til Pakistan og á meðan Stríðið gegn hryðjuverkum (the War on Terror) stóð yfir starfaði hann þar sem fréttaritari. Ég byrjaði ekki á bókinni fyrr en almennilegt netsamband var komið í nýja húsið því ég vildi geta flett upp stöðum og ýmsum atriðum. Góð ferðaskrif stuðla einmitt að slíku. Ég held að Wilkinson eigi eftir að kenna mér heilmikið um Pakistan og menningu landsins.

Bis bald!


þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Hjalt


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: DoshiSchuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Hjalt

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Í forgrunni, Nellcote/Apricot; efst, Caledonia/Mandarin; neðst til vinsti, Celandine/Sunset

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Hjalt


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Fyrir nokkrum árum deildi ég innanhússhönnun Schuyler Samperton á ensku útgáfu bloggsins. Þeir lesendur sem eru hrifnir af suzani muna kannski eftir þessari tilteknu færslu þar sem ég birti mynd, ásamt öðrum, af svefnherbergi (skrollið niður) í West Hollywood, sem tilheyrir húsi sem hún hannaði. Hún nam listasögu og skreytingarlistir við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á sviði innanhússhönnunar eru aðgengileg á netinu. Í septembermánuði ætla ég að deila myndum af mínum uphaldsrýmum eftir Schuyler Samperton á Tumblr-síðu Lunch & Latte.


Schuyler Samperton, innanhúss-og textílhönnuður, og hundurinn hennar. © Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jaras


sunnudagur, 23. júlí 2017

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur

№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Hjalt
№ 11 bókalisti | persneskur köttur og Arundhati Roy · Lísa Hjalt


Sunnudagsmorgun, kaffi, nýr bókalisti og Gilead eftir skáldkonuna Marilynne Robinson. Treystið mér, ekki amaleg byrjun á deginum. Júlí er enn ekki liðinn og ég er þegar að deila nýjum bókalista - annar listinn í mánuðinum! Ástæðan er einföld: það voru margar stuttar bækur á þeim síðasta. Nýi listinn er með örlitlu Miðausturlandabragði. Lengi hef ég ætlað að lesa Palace Walk, fyrstu bókina í Kaíró-þríleiknum eftir egypska höfundinn og Nóbelsverðlaunahafann Naguib Mahfouz. Annar höfundur sem ég er að lesa í fyrsta sinn er hin ísraelska Ayelet Gundar-Goshen. Kunningi og bókmenntaunnandi á Instagram mælti með seinni bók hennar Waking Lions (þýdd úr hebresku af Sondra Silverston) og gaf þrjár ástæður: 1) Gerist í borginni Beersheba (Beer-Sheva) sem, samkvæmt honum, er alveg nýtt í ísraelskum bókmenntum. 2) Er hið fullkomna sögusvið fyrir persónurnar, sem eru á jaðri þjóðfélagsins. 3) Sagan varpar eilitlu ljósi á kynþáttafordóma í Ísrael; hún er um flóttafólk frá Erítreu og Súdan. Það þurfti ekki meira til að selja mér bókina sem ég fékk að vísu á bókasafninu þegar ég sótti eintak mitt af nýjustu skáldsögu Arundhati Roy.

№ 11 reading list:
· The Ministry of Utmost Happiness  eftir Arundhati Roy
· Palace Walk  eftir Naguib Mahfouz
· Waking Lions  eftir Ayelet Gundar-Goshen
· The Black Prince  eftir Iris Murdoch
· Gilead  eftir Marilynne Robinson
· So You Don't Get Lost in the Neighbourhood  eftir Patrick Modiano
· The Redbreast  eftir Jo Nesbø
· Instead of a Letter  eftir Diana Athill
· Let's Explore Diabetes with Owls  eftir David Sedaris


Ég er enn að lesa Jigsaw eftir Sybille Bedford sem var á síðasta bókalista en er þegar búin að klára The Redbreast (Rauðbrystingur í íslenskri þýðingu) eftir Norðmanninn Jo Nesbø á þeim nýja. Á einhverjum punkti varð þessi þriðja bók um rannsóknarlögreglumanninn Harry Hole (sú fyrsta í Osló-seríunni) mjög spennandi og ég gat ekki lagt hana frá mér. Glæpasögur eru ekki beint sú tegund bókmennta sem ég sæki í en stundum hef ég lesið allt fáanlegt eftir ákveðinn glæpasagnahöfund (aðallega norrænu höfundana; það byrjaði allt með okkar manni Arnaldi Indriðasyni og sögupersónu hans Erlendi). Harry Hole hans Nesbø er áhugaverður karakter og ég verð að sjá hvað gerist í næstu bókinni um hann, Nemesis.

Ég er byrjuð á bók Sedaris en varð að hætta að lesa hana fyrir háttatíma því sonur minn, sem finnst notalegt að lesa með mér, gat ekki einbeitt sér að sinni bók vegna hlátursins í mér. Þetta er tár-renna-niður-kinnarnar hlátur. Ég reyndi að bæla hann niður en það tókst ekki. Sedaris er einfaldlega hættulega fyndinn og ég hlakka til að lesa Dagbækurnar. Marilynne Robinson er höfundur sem ég er að lesa aftur; ég las Home þegar við bjuggum í Luxembourg. Ég skil ekki út af hverju það hefur tekið mig svona langan tíma að næla mér í Gilead (báðar bækurnar gerast á sama tímabili í sama bænum, einnig bók hennar Lila). Prósinn í Gilead er virkilega fallegur; engin furða að bókin færði henni National Book Critics Circle-verðlaunin og Pulitzer-verðlaunin fyrir bókmenntir árið 2005.
№ 11 bókalisti | Miðausturlanda- og glæpasögur · Lísa Hjalt


Mig langar að enda á tilvísun í skáldkonuna Iris Murdoch (1919-1999) sem ég hef þegar deilt á Instagram og langaði að halda til haga á blogginu líka. Spurð út í þá aðferð sem hún notar við skáldskapinn í viðtali sem birtist í The Paris Review, sumartölublaði ársins 1990, svaraði Murdoch:
Well, I think it is important to make a plan before you write the first sentence. Some people think one should write, George woke up and knew that something terrible had happened yesterday, and then see what happens. I plan the whole thing in detail before I begin. I have a general scheme and lots of notes. Every chapter is planned. Every conversation is planned. This is, of course, a primary stage, and very frightening because you've committed yourself at this point ... [Og þegar hún talar um næsta stig.] The deep things that the work is about declare themselves and connect. Somehow things fly together and generate other things, and characters invent other characters, as if they were all doing it themselves. (Tölublað 115, sumar 1990)